Undanfarin ár hefur HYNDLA ehf staðið að tilraunum á sjálfbærri ræktun verðmætra stórþörunga í jarðsjó í kerjum innandyra á landi.
Hyndla hefur, frá árinu 2022, tekið þátt í samevrópska verkefninu TACO-ALGAE, um rannsóknir, tilraunir og hagkvæmniathuganir við ræktun stórþörunga, uppskeru, vinnslu og nýtingu verðmætra efna úr þeim. Verkefnið er til þriggja ára og er styrkt í gegnum Blue Bio Cofund sjóði Evrópusambandsins. Tækniþróunarsjóður er aðili að Blue Bio Cofund og styrkir þátttöku Hyndlu í verkefninu. Auk Hyndlu standa að verkefninu: Nofima AS, Noregi, Vetik OU, Eistlandi, Árósarháskóli í Danmörku, Háskólinn í Santiago de Compostela, Spáni, og Tækniháskólinn í Riga í Lettlandi.
Samstarfsaðilar Hyndlu hér á landi eru Hafrannsóknastofnun (HAFRÓ), Tæknisetur, Matvæla-og næringarfræðideild HÍ. Að auki hefur MATÍS unnið með Hyndlu við ýmis konar efnagreiningar og tilraunir.
Tuttugu sérfræðingar sem vinna að TACO-ALGAE verkefninu, ásamt Hyndlu ehf, komu saman til fundar í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Grósku dagana 1. – 3. maí s.l. Fjöldi erinda og kynningar voru þar flutt m.a. erindi sem þeir Karl Gunnarsson, þörungafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og Arnar Þór Skúlason, doktorsnemi við Matvæla-og næringarfræðideild HÍ fluttu um verkefni, sem þeir vinna að í samvinnu við Hyndlu .
Ýmsar niðurstöður frá TACO-ALGAE verkefninu munu koma í ljós á næstu mánuðum og misserum. Nú þegar hefur tekist að draga út úr klóblöðkunni, íslenskum þörungi sem Hyndla ræktar, litarefnið phycoerythrin en það er eftirsótt í matvælaframleiðslu, í snyrtivörur og eins er talið að það hafi margvísleg bætandi og verndandi heilsufarsleg áhrif en rannsóknir standa nú víða yfir um þann eiginleika efnisins.
