Styrkur frá AVS og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

13. 06. 2019

Í maí s.l. fékk Hyndla ehf ásamt Hafrannsóknarstofnun og MATÍS styrk úr AVS-sjóðnum til tveggja ára að fjárhæð kr. 20 milljónir. Styrkurinn er veittur vegna rannsókna á klóblöðku og þróun aðferða við ræktun hennar í eldiskerjum á landi með borholusjó. Þróunarverkefnið mun nýtast við tilraunir með aðrar þangtegundir þegar fram líða stundir.

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi starfar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

AVS rannsóknasjóður veitir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Skammstöfunin AVS er einmitt til kominn af orðunum „Aukið Verðmæti Sjávarfangs“. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum“.

Við erum sjóðnum afar þakklát fyrir þá framsýni sem hann sýnir með því að styrkja verkefnið. Í okkar huga, sem stöndum að verkefninu, getur það stuðlað að nýrri atvinnugrein með ræktun þangs og þara með sjálfbærum hætti án þess að gengið verið um of á náttúruleg búsetusvæði sjávarplantna og þeirra lífvera sem þar þrífast, með tínslu og slætti.

Nýting þangs og þara og þeirra margvíslegu efna sem í þeim er að finna mun aukast til mikilla muna á næstu árum og áratugum. Háum fjárhæðum er nú varið í rannsóknir og þróun ræktunaraðferða þörunga hjá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Kanada og víða um heim. Við hjá Hyndlu teljum að á Íslandi séu einstakar aðstæður til ræktunar þörunga vegna legu landsins, ómengaðs umhverfis, hreins sjávar og hreinna og sjálfbæra orkugjafa.

Samstarfsaðilum okkar hjá HAFRÓ og MATÍS þökkum við fyrir einkar ánægjulegt og gefandi samstarf og væntum mikils af því á komandi árum.