
„Ég veit um manninn, sem getur hjálpað okkur” sagði Guðrún og hélt svo áfram „hann er bráðsnjall, hugmyndaríkur og svo er hann svo skemmtilegur”. Tilefnið var fundur okkar hjá Hyndlu að ræða hugmynd um hreinsun á affalli frá stærstu lax-og bleikjueldisstöð landsins, Samherja fiskeldi í Grindavík, með því að rækta í því stórþörunga. Hugmyndin var að slá tvær flugur í einu höggi; hreinsa affallið með því að rækta í því þörunga sem nýta mætti síðan í margs konar framleiðslu svo sem fyrir lífeldsneyti, áburð til ræktunar og uppgræðslu auk verðmætra efna í ýmsan iðnað. „Hver er maðurinn spurðum við félagarnir?” „Nú hann Jón vinur minn frá Berlín, Jón Bernódusson verkfræðingur og fagstjóri rannsókna og þróunar hjá Samgöngustofu. Aðal hugmyndafræðingurinn á bak við repjuolíuna”.
Hún var eftirminnileg innkoma Jóns þegar hann kom á okkar fyrsta fund í Garðastrætið fyrir rúmum tveimur árum. Hár, þrekvaxinn, ljós yfirlitum með glettnisbros á vör, birtist hann í dyrunum. Höfðinglegur en án yfirlætis og það urðu fagnaðarlæti þegar gömlu Berlínarvinirnir heilsuðust. Það tók okkur Gest ekki meiri en mínútu til að sjá að þarna var hann kominn; maðurinn sem við þurftum – fleiri lýsingarorð voru óþörf.
Það er skemmst frá því að segja að með okkur tókst hin ánægjulegasta samvinna við að hrinda í framkvæmd hugmyndinni með affallið. Jón var fljótur að átta sig á möguleikunum og stuðlaði að aðkomu Samgöngustofu að verkefninu. Hann átti síðan stærstan þátt í að leggja grunninn að tilraunakerfinu, sem byggt skyldi á. Margreyndur verkfræðingurinn lagði á það áherslu að þetta væri tilraunaverkefni, vegferð þar sem ýmislegt gæti komið upp á áður en endanleg niðurstaða fengist. Hann reyndist sannspár, auðvitað komu upp ýmsir hnökrar hér og þar og sumir alvarlegri en aðrir , veiran og síðan löng dvöl Jóns í Bandaríkjunum síðasta vetur þar sem hann gekkst undir tvo erfiða uppskurði. Með hækkandi sól hafði Jón náð góðum bata og var fullur tilhlökkunar að hefjast handa við verkefnið að nýju en sagði okkur að hann ætti eftir að fara í einn uppskurð til viðbótar í Bandaríkjunum til að koma endanlegu lagi á kerfið eins og hann orðaði það. Í lok júlí fórum við saman í góða og árangursríkaferð til Grindavíkur þar sem lagt var á ráðin með endurbætt ræktunarkerfi. Jón var í þeirri ferð eldhress að því er virtist, fullur eldmóðs og tilhlökkunar yfir komandi tilraunum á hausti komandi. Það var svo 23. september s.l. sem við fengum þau sorgartíðindi að Jón hefði látist skyndilega deginum áður.
Jón var orðinn mikill vinur okkar, frábær samstarfsfélagi, hugmyndaríkur, úrræðagóður og æðrulaus á hverju sem gekk og verður hans sárt saknað af okkur hjá Hyndlu.
Við vottum fjölskyldu Jóns, eiginkonu, dætrum og systkinum okkar dýpstu samúð – missir þeirra er mikill.
Að leiðarlokum þökkum við Jóni fyrir vináttuna, uppörvunina og drengskapinn, sem hann sýndi okkur meðan á þessu allt of stutta samstarfi og kynnum stóð.
Blessuð sé minning sómamanns.