
Klóblaðka í ræktun.
Það er okkur hjá Hyndlu mikil ánægja að segja frá því að nú í desember 2022, var félaginu veittur styrkur úr Tækniþróunarsjóðnum Vexti, til tveggja ára. Samstarfsaðilar okkar í verkefninu, sem styrkinn hlaut, eru Hafrannsóknastofnun og Tæknisetur ehf (áður Nýsköpunarmiðstöð).
Heiti verkefnisins er ,,Ræktun matþörunga allt árið” en helstu markmið þess eru m.a.:
a) Sjálfbær ræktun verðmætra stórþörunga við stýrðar aðstæður í jarðsjó í kerjum innandyra, á landi.
b) Hagkvæmt ræktunarkerfi sem skapar kjöraðstæður fyrir vöxt og viðgang stórþörunga fengið með ræktunartilraunum við ýmsar aðstæður.
c) Aðferð til að fjölga þörungum
Styrkurinn er félaginu afar mikilvægur til að halda rannsóknum og tilraunum áfram og ljúka því sem stefnt er að; að koma afurðum á markað á árinu 2025. Styrkurinn er ekki síður mikil viðurkenning fyrir Hyndlu og fyrir þær rannsóknir og tilraunir sem félagið hefur staðið að frá því um mitt ár 2017 á ræktun rauðþörunga í kerjum á landi.
Frá upphafi hefur Hafrannsóknastofnun verið samstarfsaðili Hyndlu að verkefninu. Einnig hafa MATÍS og Nýsköpunamiðstöð/Tæknisetur komið að einstökum verkefnum og verið meðumsækjendur í umsóknum sem styrki hafa hlotið þ.e. úr AVS sjóðnum og Tækniþróunarsjóðnum Sprota. Kann félagið þessum aðilum bestu þakkir fyrir frábært samstarf.
Auk ofangreindra styrkja hefur Hyndla hlotið Evrópustyrk fyrir tilstuðlan BlueBio Cofund, sem er samstarfsvettvangur sautján Evrópuþjóða innan ESB, sem ætlað er að efla hið svokallaða bláa hagkerfi innan ríkjanna sautján. Tækniþróunarsjóður er aðili að samstarfinu og styrkir þátt Hyndlu í verkefninu, sem nefnist TACO-ALGAE.