Undanfarin ár hefur frumkvöðlafyrirtækið Hyndla ehf staðið fyrir rannsóknum og tilraunum á eldi rauðþörungsins klóblöðku og fleiri rauðþörungum s.s. sölvum í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík. Á síðastliðnu ári var fyrirtækinu boðin þátttaka í samevrópsku verkefni, TACO-ALGAE, um rannsóknir, tilraunir og hagkvæmniathuganir við ræktun stórþörunga, uppskeru, vinnslu og nýtingu verðmætra efna úr þeim. Verkefnið er til þriggja ára og er samþykkt af Blue Bio Cofund sjóði Evrópusambandsins. Tækniþróunarsjóður er aðili að Blue Bio Cofund og greiðir þátt Hyndlu í verkefninu. Heildarstyrkur til verkefnisins nemur 194 milljónum króna.
Auk Hyndlu ehf, taka fyrirtæki og háskólar í fimm Evrópulöndum þátt í verkefninu. Viðfang verkefnisins eru rauðþörungarnir Furcellaria lubricalis, sem vex í Eystrasalti og Schizymenia jonssonii (klóblaðka) sem vex eingöngu á Íslandi. Verkefnið tekur til þriggja meginþátta. Í fyrsta lagi verða gerðar rannsóknir er varða ræktun og meðhöndlun þörunganna með tilliti til geymsluaðferða, rekjanleika, flutninga og geymslu. Í öðru lagi verður efnainnihald þörunganna rannsakað og gerð tilraunir til að draga úr þeim ákveðin verðmæt efni. Í þriðja lagi verður lagt mat á sjálfbærni framleiðslunnar á öllum stigum með tilliti til efnahags-, umhverfis- og félagslegra þátta.
Unnið verður með fyrirtækjum á sviði matvæla-, snyrtivöru- og lyfjaframleiðslu, sem nýtt hafa efni úr rauðþörungum í framleiðsluvörur sínar. Þau munu prófa efnin sem dregin verða út í þessari rannsókn í vörur sínar. Með þeim hætti fæst bein tenging við neytendamarkaðinn.
Aðkoma Hyndlu ehf að verkefninu er áframhaldandi tilraunir með ræktun rauðþörunga innandyra í hreinum borholusjó á Reykjanesi. Einnig mun Hyndla bera saman aðferðir við framleiðslu og vinnslu sem þróaðar verða fyrir Furcellaria lumbricalis og þær sem Hyndla hefur þróað fyrir klóblöðku.
Boð til Hyndlu ehf um þátttöku í TACO- ALGAE-verkefninu sýnir mikinn áhuga og viðurkenningu á rannsóknum fyrirtækisins á eldi rauðþörunga í kerjum á landi. Auk Evrópustyrksins, hefur Hyndla hlotið styrk frá AVS sjóðnum og fyrirtækjastyrk Sprota hjá Tækniþróunarsjóði. Helstu samstarfsaðilar Hyndlu í verkefninu eru Hafrannsóknarstofnun, MATÍS og Nýsköpunarmiðstöð (nú Tæknisetur).

Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælaverkfræðingur og stjórnarformaður og
Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur, meðstjórnandi